25 september 2007

Alveg vissi ég þetta

Nú þarf ég sko að safna liði.
Ég þarf að fara að næturlagi á Faxatröðina og ræna henni Kolgrímu minni. Ég sagði við Guðlaugu í gær að ég ætlaði að sækja Kolgrímu í dag. Þá yrði ég búin að kaupa sand og mat og allt sem ein lítil kisa þarf að hafa á sínu heimili.
Það var ekki eins og Guðlaug segði "kominn tími til að þú takir þennan kött þinn" nei, ó, nei. Hún sagði við mig hvort ég vildi ekki bara sækja hana á föstudaginn svo ég yrði örugglega heima hjá elsku Kolgrímu minni fyrstu dagana á nýja heimilinu hennar.
Fyrst vildi Guðlaug að Kolgríma yrði hjá henni í allt sumar, svo að ég myndi ekki sækja hana fyrr en ég yrði búin að koma mér vel fyrir og núna þegar ég er tilbúin að taka hana þá bara er mér bent á að Kolgríma þurfi betri undirbúning og aðlögun að nýju heimili.
Á föstudaginn veit ég að Guðlaug stingur upp á því að ég taki Kolgrímu ekki fyrr en um jól.
Svo kemur mér ekki á óvart þó ég fái kettling í jólagjöf frá Guðlaugu.

|