25 október 2007

Dropinn sem fyllti mælinn

Oft veltir (eða veldur) lítil þúfa þungu hlassi.
Hvort skyldi nú vera rétt - ég þarf að fletta þessu upp þegar ég fer í að taka upp orðabækurnar mínar.
Ég er búin að standa í alls konar stórræðum á árinu. Miklum fasteignaviðskiptum og alls konar mikilvægum ákvarðanatökum.
Ég hef að mestu staðið í þessu ein. Vinir og vandamenn hafa auðvitað hjálpað mér með verklegar framkvæmdir, annars hefði ég ekki ráðið við allt sem ég hef verið að framkvæma. En allar ákvarðanatökur hafa auðvitað verið í mínum höndum og í mínum haus.
Það hefur ekki farið framhjá ykkur sem lesið þessa bloggsíðu endrum og sinnum að ég hef verið að koma mér upp nýju heimili og því fylgir ótrúlega mikið af snúningum.
Svo var það hér einn daginn þegar ég hafði verið að vinna eitt og annað og er að aka í vinnuna að mér verður litið á kílómetramælinn á bílnum. Jesús, Pétur og Jóhannes, ég átti örugglega að vera búin að fara með bílinn í olíuskipti. Svo á hann að fara í skoðun núna í október.
En þar sem ég var nú að velta fyrir mér þessum olíuskiptum þá helltist yfir mig hugsun um það hvað það getur verið þreytandi að þurfa að hugsa ein um alla hluti, að sjá um að allt vélvirkið gangi rétt og að öll tannhjól séu smurð á réttum tímum.
Ég var næstum farin að skæla af sjálfsvorkunn.
Mér fannst það nú samt fyndið þegar þessi smávægilega örvænting bráði af mér að hugsa til þess að bara það að opna hanskahólfið og kíkja í olíubókina skyldi verða svona mikið mál í mínum huga.
Mannshugurinn er skrýtin skrúfa.

|