29 október 2007

Húsasmiðjan

Ég er alvöru húsbyggjandi. Ég á reikning í Húsasmiðjunni.
Ég kem í Húsasmiðjuna, finn eitthvað sem mig langar í og segi "þú setur þetta bara í reikninginn minn". Mér finnst ég svo eitthvað mikið alvöru þegar ég versla í reikning í byggingavöruverslun.
Reyndar er svo sem búið að byggja húsið og ég hef það afskaplega gott. Þegar ég var að fara í vinnuna í dag þá stoppaði smiður mig hér úti í götu og spurði hvort garðhurðin væru ekki eitthvað stíf. Sagðist hafa fengið ordru um að laga hana. Ég var ánægð með það enda hef ég þurft að beita öllum mínum þunga og öllum mínum kröftum til að loka henni og læsa. Þið getið því ímyndað ykkur hvursu stíf hurðin var. Þegar ég kom heim úr vinnunni var hurðin lipur eins og ballerína.
Nema hvað, ég ætlaði að tala um Húsasmiðjuna. Ég þarf svo sem ekki að versla mikið eða merkilegt þó ég eigi þennan reikning, mér skylst að BYKO og Húsó pikki út alla sem eru að kaupa húsnæði og bjóði þeim reikingsviðskipti.
En í dag fór ég til að kaupa mér nagla, mig vantaði 10 litla nagla. En hva, það er ekki hægt að kaupa sér nagla nema kaupa kassa með 1.000 nöglum í - hvað í ósköpunum á ég að gera við þessa 990 sem verða afgangs? En sem betur fer eru konur að afgreiða í Húsó og skilja hvað vandamálið er og leysa það.
Svo fannst mér ég bara svolítið flott með lítinn poka með nokkrum nöglum í þar sem ég beið eftir að fá afgreiðslu á kassanum og karlinn á undan mér var að kaupa alls konar rör, hné og fittings eða hvað þetta heitir allt saman.

|