07 október 2007

Við prinsessurnar...

... í Skógarkoti erum afskaplega ánægðar með daginn.
Ég er nýböðuð og komin í hlý og góð náttföt, en Kolgríma kúrir á borðstofustól og malar. Afar ljúft lífið hér í skóginum.
Það hefur ekki verið skýhnoðri á himni í dag og Kolgríma hætti sér út aðaldyramegin enda er sunnudagur og öll vinna í götunni hefur legið niðri. Það hefur ekki verið hávaði frá vinnuvélum, hamarshögg eða ókunnir karlar á vappi. Kolgríma var því bara nokkuð örugg með sig á dyrahellunni þar sem sólin skein á hana.
Hún er aðeins farin að vilja vera úti, en ekki mikið og hún vill helst alltaf ganga um sömu dyrnar, þ.e.a.s. garðdyrnar sem snúa til suðurs. Þó Skógarkot sé ekki stórt hús þá eru þrennar dyr inn í íbúðina og tvær leiðir inn í bílskúrinn. Kisa hefur því um marga möguleika að velja en kann best við þessar garðdyr. Á Reynivöllunum fannst henni líka þægilegt að ganga um garðdyrnar. Garðdyrnar hér eru samt betri að því leyti að glerið er glært en á Reynivöllunum var það þykkt, litað og mynstrað þannig að það sást illa inn um það. Nú stendur kisa bara á pallinum og mænir inn í von um að ég sjái hana og hleypi henni inn.
En það var ekki bara Kolgríma sem fór út að viðra sig. Ég fór í einn lítinn hjólatúr og einn góðan göngutúr. Í göngutúrnum í morgun kom ég við hjá Þórhalli og Guðlaugu á Faxatröðinni. Þau voru á kafi í sláturgerð. Ég uppskar kvöldmatarboð og núna er ég úttroðin af nýrri lifrapylsu og nýju grænmeti.
Slátur er algert nammi,namm. Ég held ég gæti bara haft slátur á jólunum svei mér þá. Heit lifrarpylsa og ris alamand. Fullkomið. Minnir mig á að ég á hrútaberjasaft sem hrútaberjameistari bæjarins færði mér um daginn, ég ætla sko að geyma þessa saft til að hafa hana út á jólagrautinn.

|