02 desember 2007

Ég skil ekki

... hvað er svona heillandi við flugfreyjustarfið.
Ef ég ætti að vinna við að bera fram kaffi, hreinsa upp ælur og róa fólk á barmi taugaáfalls, þá vildi ég frekar hafa fast land undir fótum í vinnunni.
Í dag flaug ég heim. Fékk ótrúlega fínt flug miðað við hvað veðrið er leiðinlegt á austanverðu landinu. Voðalega gott að koma heim í kotið til Kolgrímu. Maggi tók á móti mér, eða öllu heldur stóru ferðatöskunni minni. Ekki gott að vera að koma af skurðarborði og vera að asnast með ferðatösku upp á 31 kg.
Ég vildi að ég fengi að vera veðurteppt heima á morgun. Jæja, kannski óþarflega eigingjörn ósk. En ég á nefnilega nýju bókina hans Jóns Kalman og Sviss miss þannig að þetta er bara svona ljúfur draumur.
Í dag ranglaði ég um Kringluna, af því að ég er svo íslensk - keypti mér eldrauða jólaskó, lakkskó með pinnahæl. Ég sá fullt af fólki sem ég þekkti. Dorit forsetafrú, Pétur Blöndal alþingismann, Margréti Blöndal útvarpskonu og nokkra leikara.
Ég sá bara einn sem þekkti mig. Bjössa þeirra Tótu og Skúla. Það yljar mér alltaf þegar synir og dætur vina minna heilsa mér á förnum vegi og spjalla.

|