06 desember 2007

Hver er sinnar gæfu smiður

... ef hann er heppinn.
En sumir fá aldrei neinn efnivið í gæfusmíði.
Ég las grein í Mogganum um síðustu helgi og mynd sem var með greininni hefur greipst í huga minn. Ég hef reyndar séð þessa mynd áður og hún hafði þá líka svona mikil áhrif á mig.
Myndin sýnir lítinn dreng í stuttbuxum, hann hleypur brosandi á móti ljósmyndaranum, er greinilega að fagna komu hans. Í bakgrunn er annað fagnandi barn á hlaupum og stórt gamalt hús.
Myndin er tekin um miðjan 7. áratuginn á Kumbaravogi.
Um þær mundir sem þessi mynd er tekin átti ég áhyggjulausa og hamingjusama bernsku í Kópavoginum. Ég fór í sveit austur á Borgarfjörð til Sillu frænku, ég ferðaðist um hálendið með pabba, mömmu og systur minni, ég átti yndislega daga upp við Elliðavatn í áhyggjulausum leik. Ég fór ásamt systkinum mínum með Binna frænda í bíó eða niður á Tjörn að gefa öndunum.
Lífið var gleði, leikur og suðandi fiskiflugur.
Ég viðaði að mér efni í mína gæfusmíði síðar á lífsleiðinni.
Það er svo undarlegt að hugsa til þess að á okkar ástkæra Íslandi hafi á sama tíma verið hópur barna sem rændur var barnæsku sinni og það skipulega á vegum opinberra aðila. Þetta gerðist ekki í Rússlandi eða Bandaríkjunum, einhvers staðar langt, langt í burtu þar sem vondu hlutirnir gerast. Þetta gerðist á okkar litla landi, hjá okkar fámennu þjóð þar sem maður hélt að allir væru jafnir.
Hvað getum við gert til að gera þessu fólki sem dvöldu sem börn á Silungapolli, Kumbaravogi eða í Breiðuvík ævina bærilega? Við getum ekki gefið þeim aftur bernskuna sem þau voru svipt, en hvað getum við gert?
Sögur frá Breiðavík eru eins og hryllingssögur frá Síberíu.
Litli brosandi drengurinn á myndinni í Mogganum átti ekki ljúfa ævi, hann var ekki bara á Kumbaravogi, hann var líka í Breiðavík og hann var ekki nema rúmlega tvítugur þegar hann fannst látinn og það veit enginn hvers vegna hann dó. Skiptir það kannski engu máli af því að hann var einn af þessum drengjum sem barnaverndaryfirvöld drógu út á kaldan klakann?

|