01 janúar 2008

Gleðilegt ár

og takk fyrir allt á liðnu ári.
Jæja, þá er nú nýtt ár gengið í garð og viðburðaríkt ár að baki. Ár mikilla framkvæmda og breytinga í mínu lífi. Breytinga sem ég trúi að verði til góðs.
Gamlárskvöld og nýársnótt voru afskaplega hugguleg hér í Skógarkoti. Systkini mín og nokkrir af þeirra fylgifiskum komu hingað upp í skóginn þegar nálgaðist miðnætti og það var eins og ég hafði reiknað út, alveg með eindæmum fínt útsýni yfir flugeldasýningu bæjarbúa. Nema þetta var bara miklu meir upplifun en ég hafði gert ráð fyrir því ég hafði ekki tekið með í reikninginn alla flugeldana sem fóru í loftið hjá nágrönnum mínum hérna niður í brekkunni.
Þetta var alvega ólýsanleg upplifun. Gestirnir mínir voru með tertur og ragettur með sér svo það fóru nokkur ljós upp í himinhvolfið héðan frá Skógarkoti.
Ég tilkynnti systkinum mínum að ég vonaðist til þess að þetta yrði árlegur viðburður hjá okkur, að við myndum koma saman hér fyrir miðnætti og eiga svo skemmtilega nýársnótt saman.
Nína vinkona kom líka og við sátum og spjölluðum löngu eftir að allir hinir voru farnir. Framundan eru fimmtugsafmælin okkar Nínu. Hún er reyndar töluvert eldri en ég, verður fimmtug í júli en ég verð nú ekki fimmtug fyrr en í nóvember.
Svo verða æskuvinkonurnar í Kópavogi líka flestar fimmtugar á árinu þannig að þetta verður mikið afmælisár.
Ég steig á stokk og strengdi alls konar heit. Aðallega að lifa heilbrigðu lífi og í takt við það fékk ég mér kókóstertu með jarðaberjarjóma í morgunmat. Mjólkurafurð með ávöxtum, kannski óþarflega mikið af fitu og sykri, en það er nú einu sinni nýársdagur.

|