31 janúar 2008

Kulvís ísbjörn

Í fyrra lífi hef ég verið ísbjörn - ef fyrra líf er til.
En ég hef örugglega verið rosalega kulvís ísbjörn.
Mér finnst æðislegt þegar það er bylur og ég er inni í hlýjunni, það sér varla út fyrir snjónum sem er klesstur á gluggana, eins og núna.
Þegar snjórinn fýkur fyrir utan og ég veit að allir eru í öruggu skjóli, þá líður mér rosalega vel.
Ég hef verið veðurteppt upp á fjöllum í blindbyl, en það var bara gott - við höfðum það fínt í skálanum. Þegar ég var föst á Öxi í meira en hálfan sólarhring leið mér ágætlega, það var hlýtt í bílnum og ég vissi að fyrr eða seinna kæmi björgunarsveitin. Verst að vera þar sem ekkert símasamband var og geta ekki látið vita af sér. Enda voru einhverjir sem héldu að við hefðum dempt okkur útaf í Hvalnesskriðum eða eitthvað þaðan af verra.
En mér leið bara ágætlega pikkföst í skafrenningi og varla sá út fyrir húddið á bílnum.
Ef ég væri ekki úttroðin af lifrarpylsu myndi ég hita mér kakó.

|