24 febrúar 2008

Konudagur

Ég er orðin nokkuð góð í vöfflubakstri. Að vísu eru vöfflurnar skjóttar, enda bakar vöfflujárnið með mjög mislægum hita. Ef þetta skánar ekki verð ég að fara og tala við hana Ragnhildi í Húsasmiðjunni.
Undanfarna daga hef ég leitað logandi ljósi að öðrum Cintamani-göngubuxunum mínum til að geta verið klár í Kverkfjallatúrinn um næstu helgi, ef kappinn hann Maggi kemur jeppanum í lag.
Ég hef spurt alla sem mér dettur í hug að hafi vitneskju um hvar mér er trúandi til að skilja eftir fötin mín, hvort þeir hafi séð buxurnar mínar.
Nú er það svo að kona á mínum aldri tapar ekki buxunum sínum nema annað hvort að hún sé gliðra eða sé farin að fá aðkenning að minnisleysi. Sem betur fer komst ég að því að það er seinna atriðið sem á við mig. Ég var sem sagt búin að ganga frá í skúffu nokkrum fjallaflíkum, ullarbrókinni, flísbuxunum, þunnri ullarpeysu og betri göngubuxunum, til að hafa þetta allt á einum stað ef á þyrfti að halda. Svo þegar svona miðaldra kona hefur þetta líka skápapláss sem ég hef þá bara týnist það sem ekki er í stöðugri notkun.
Í tilefni konudagsins fór ég í Blómaval og keypti blóm handa mömmu. Svo sat ég hjá henni og sagði henni sögur af því hvað kisurnar mínar væru góðar og skemmtilegar. Þegar ég kom heim komst ég að því að þær eru ekki eins góðar og skemmtilegar og ég hafði verið að segja mömmu. Alla vega ekki Klófríður. Hún hafði notað tímann sem ég var að heiman til að gera róttæka tilraun til að leggja heimilið í rúst. Búin að henda niður blómapottum og svína allt út.
Nú hefst uppeldi hennar fyrir alvöru og spreybrúsinn sem Kolgríma fékk að kenna á meðan hún var að læra að ganga um heimilið er nú óspart notaður á Klófríði. Verst að ég fæ samviskubit þegar ég er að spreyja á hana, en þetta er eina leiðin til að kenna henni hvar hún á alls ekki að vera.

|