11 febrúar 2008

Íslensk tunga

Ég held að ég sé að tapa tengslum við móðurmálið.
Áðan heyrði ég í fréttum að í kjarasamningum er verið að bjóða eitthvað í baksýnisspegli. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað er verið að bjóða eða hvað í þessu tilboði, sem ég skil ekki, felst.
Í minni málvitund er baksýnisspegill tæki sem er á ökutækjum og maður notar til að geta fylgst með því sem fyrir aftan er án þess að snúa hausnum. Ég hef bara ekki ímyndunarafl til að sjá hvað svoleiðis tæki hefur með kjarasamninga að gera.
Svo er þessi málvenja sem hefur rutt sér til rúms í Sjálfstæðisflokknum - að gera mistök. Í mínum huga er það að gera mistök eitthvað sem maður gerir og iðrast svo að hafa gert. Að mistakast eitthvað, að verða eitthvað á. Skv. mínum málskilningi felur hugtakið - að gera mistök ófravíkjanlega í sér eftirsjá, iðrun eða í það minnsta einhverja þá tilfinningu að menn vildu síður hafa gert það sem þeir hafa gert.
Skv. fréttum undanfarið af störfum Vilhjálms fyrrverandi og komandi borgarstjóra og skv. því sem Árni Johnsen lýsti yfir eftir dvölina á Kvíabryggju, virðist mér að orðasambandið - að gera mistök, sé að gera eitthvað af sér og það kemst upp. Mistökin virðast ekki liggja í verknaðinum sem framinn var heldur í þeirri staðreynd að verknaðurinn uppgötvaðist.
Ég held ég verði að fara að endurskoða málvitund og málskilning minn.

|