04 febrúar 2008

Úti er alltaf að snjóa...

... hvað sem veðurspár segja, ég hélt að það ætti að vera hláka í dag.
Svo hefur ekki sést snjóruðningstæki í götunni minni alla síðustu viku svo nú er gott að vera á Súbarú.
En uppi í fjalllendinu fá skrifstofudragtir og þess háttar pjattfatnaður að hanga í friði inn í skáp, nú er það bara föðurlandið og snjóbuxur, lopapeysa og vettlingar.
Barnfóstrið gekk vel um helgina. Smá óvæntar uppákomur eins og vitlaust afgreidd pizza og Guðrún Lára átti erfitt með svefn því Kolgríma og Klófríður voru hoppandi um rúmið. Það endaði með að kettirnir voru gerðir brottrækir úr svefnherberginu og við sváfum í friði og ró eftir það.
Öll kvöld í þessari viku fara í þorrablótsundirbúning á Völlum. Það er verið að semja drápur, söngtexta, leikþætti og annál. Skreyta salinn og gera allt fínt.
En við höfum svo góða matmóður í hópnum að það fer líka tími í að sitja og raða í sig.
Vona bara að gestir blótsins skemmti sér eins vel og við í nefndinni skemmtum okkur við undirbúninginn.

|