06 mars 2008

Samkvæmislífið í blóma

Það er svo mikið að gera að ég kemst varla yfir það.
Um síðustu helgi var það Kverkfjallaferðin, í gær var aðalfundur hjá Soroptimistum á Austurlandi og litla blótið hjá Vallamönnum var haldið á Skriðuklaustri.
Í kvöld flýg ég suður.
Við Nína ætlum að eiga stelpuhelgi í höfuðborginni. Við förum í leikhús annað kvöld og svo förum við að kíkja á næturlífið í borginni, út að borða, í bíó og að stelpast í Kringlunni og Smáralind.
Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps ætlar að hitta okkur á Jómfrúnni í Lækjargötu svo það verður fjör alla helgina.
Það liggur við að ég taki með mér vegabréfið mitt, mér finnst eins og við Nína séum að fara í helgarferð til útlanda.
Ég er rosalega upptekin við að gera ekki neitt en Nína er rosalega upptekin við að stjórna sveitarfélaginu. Það eru líka mörg mál sem brenna á Héraðsbúum um þessar mundir eins og skipulagsmálin við Egilsstaðabýlið og svo er búið að leggja niður Fasteignamat ríkisins á Egilsstöðum. Það finnst mér alveg ótrúlegt. Núna þegar fasteignir hafa margfaldast hér fyrir austan er Fasteignamatið bara lagt niður, það verður Fasteignamat á Akureyri og á Selfossi en allt landsvæðið þar fyrir austan verður án þessarar þjónustu í heimabyggð.
Maður bara spyr sig hver ætlar að bera ábyrgð á eignatjóni sem getur hlotist af því að eignir eru ekki rétt uppfærðar í Fasteignamatinu? Og á tímum mótvægisaðgerða út af kvótaskerðingu þegar verið er að búa til einhver störf á landsbyggðinni þá er bara lögð niður sjálfsögð þjónusta eins og mat á fasteignum. Sá sem á að þjónusta Austurland frá Akureyri verður eins og útspýtt hundsskinn og ég veit ekki nema að þetta fyrirkomulag verði ekkert ódýrara en að hafa skrifstofu á Egilsstöðum. Það verður t.d. að greiða manninum bæði ferðakostnað og dagpeninga fyrir austurferðir.

|