Mánudagsföstudagur
Ég er alveg rugluðu í kollinum í dag.
Mér finnst endilega vera mánudagur og ég er búin að gleðjast oft í morgun þegar ég hef fattað að það er föstudagur en ekki mánudagur. Það er bara alveg stimplað í hausinn á mér að það sé mánudagur.
Helgin framundan. Ég ætla bara að taka því rólega í faðmi fjölskyldunnar, þ.e.a.s. með Klófríði og Kolgrímu. Kósýkvöld og furnálafreyðbað. Skreppa til mömmu á Seyðisfjörð ef einhvern tíma dregur úr snjókomu.
Í kvöld er stjórnarfundur hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, við þurfum að taka ákvörðun um hvort við seljum alla fjallaskálana okkar, 5 stykki, eða hvort það sé einhver von til að við getum rekið þá áfram.
Endurnýjun og viðhald skála FFF byggist á sjálfboðaliðsstarfi og það er bara orðið svo erfitt að fá fólk í vinnuferðir.
Ég vil alla vega frekar selja FÍ skálana en að sjá þá grotna niður og fara í skítinn.
Það er spurning hvort skálarnir opni ekki leið heimamanna til aukinna áhrifa í þjóðgarðinum, þar sem þessir fimm skálar okkar eru allir innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. En ef ekkert fé fæst í reksturinn og menn hætta að taka þátt í sjálfboðaliðsstarfi þá er sjálfhætt.
Við eigum áfram skálana í Breiðuvík og Húsavík. Svo er framundan bygging skála í Loðmundarfirði.
Það má því segja að starf Ferðafélags Fljótsdalshéraðs sé að færast ofan af fjöllum og niður í fjöru.