27 júní 2008

Að rækta garðinn sinn

Þá get ég farið að rækta garðinn minn.
Jónsmenn hafa lokið allri jarðvinnu og Uppsalamenn eru búnir að þökuleggja garðinn við Skógarkot.
Í dag ætla ég að draga saman grjót til að raða við neðri lóðarmörkin og keyra svolítið af kúlugrjóti að lóðarmörkum. Það er ótrúlega spennandi að standa í þessu garðastússi. Svo er bara eftir að tengja garðljósin í steinabeðinu og að setja niður skjólbelti og einn reynivið - þá er þetta bara alveg tilbúið. Ljósin koma á morgun en afgangurinn ræðst af afkastagetu minni.
Í gærkvöldi skemmtum við Maggi og Nína okkur á Jazzhátíðinni í Valaskjálf, í kvöld fer ég í grill út á golfvelli - smá golfmót á undan. Annað kvöld förum við Maggi á Seyðisfjörð að hlusta á lokatónleika Jazzhátíðarinnar en þá spilar Bloodgroup og Beady Belle í Herðubreið.
Þessi hálfi mánuður sem ég hef verið í sumarfríi hefur flogið frá mér og það hefur verið svo mikið að gera að ég veit að það verður bara hvíld fyrir mig að komast aftur í vinnuna á þriðjudaginn.

|