23 október 2008

Er ég reið?

Ég er bara ekki alveg viss.
Ég er að reyna að skilgreina þess tilfinningu sem ég finn fyrir. Það eru svo mörg ár síðan ég varð reið að ég man ekki einu sinni eftir því hvenær það var. Það fauk í mig fyrir fjórum árum út í afgreiðslumann í Símabúðinni sem eitt sinn var hér á Egilsstöðum. En mér líður ekki eins og þá.
Ég held að ég sé bara eitthvað dofin, mér finnst allt eitthvað svo absúrd og óraunverulegt. Er ég stödd í Undralandi?
Ég vil að menn verði dregnir til ábyrgðar. Ég vil að þeir sem eiga sökina á þessu risavaxna bankaæxli fái að svara fyrir gerðir sínar.
Ég vil að eignir þeirra verði gerðar upptækar til ríkissjóðs, þetta eru eignir sem við eigum að fara að borga fyrir þannig að þjóðin hlýtur að eiga þetta góss.
Það hefur ekki vafist fyrir stjórnvöldum hingað til að taka landareignir bænda eignarnámi hægri vinstri, svo það hlýtur að vera hægt að finna lagaheimildir til að gera eignir útrásarmanna upptækar. Það er venja í sakamálum að góssið er gert upptækt.
Nú ef ekki finnast lagaheimildir, þá ætti ekki að vefjast fyrir þingheimi að setja lög um það.
Svo vil ég að stjórnmálamenn sem sköpuðu jarðveg fyrir þetta bankaæxli sæti ábyrgð.
Ég vil fyrst sjá eftirlaunalög ráðherra afnumið, þeir eiga ekki skilið betra ævikvöld en almenningur í landinu.
Næst þegar við komum í land vil ég að það verði skipt um áhöfn í brúnni. Það er lágmark að þeir sem stjórna skútunni kunni á einfaldan áttavita.
Ef þjóðin sæti ekki uppi með þetta bankaskrímsli þá væri heimskreppa eitthvað sem við hefðum leikandi létt siglt í gegnum.

|