Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Er ekki nóg að missa eigur sínar þó menn missi ekki vitið líka?
Ég er ekki sérlega sögufróð, en mér þykir fyrirsögn í Mogganum í dag alveg ótrúlega eitthvað út í hött. Staðan ekki alvarlegri síðan í móðuharðindunum.
Margt hefur gerst á Íslandi frá því í móðuharðindum og fram til dagsins í dag. Snjóflóðin fyrir vestan 1995, í Neskaupstað 1974, Vestmannaeyjagosið 1973. Þetta eru staðbundnar hörmungar en fólkið sem lenti í þeim er vonandi ekki að fara upplifa eitthvað enn verra í dag.
Hvað með kreppuna 1930 í því þjóðfélagi sem þá var? Hvað með frostaveturinn mikla 1918? Spönsku veikina? Hafísárin 1880?
Hvað með Öskjugosið 1875 þegar askan lagðist yfir stóran hluta Austurlands og menn tóku að streyma til Kanada? Hvað með vistabandið?
Á að fara að bjóða menn upp á manntalsþingum? Á að fara taka börnin af þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum og koma þeim til vandalausra? Horfa á eftir þeim þangað sem þau lepja dauðann úr skel, verða látin þræla myrkranna á milli og kannski lamin og barin í kaupbæti.
Nei, ég held að við ættum aðeins að minnast þess að við eigum lífvænlegra samfélag en þetta. Að úrræðin eru önnur í dag en fyrir 100 árum.
Þó útlitið sé dökkt, þá ættu menn aðeins að gæta tungu sinnar, það er ekki á ástandið bætandi þó menn leggist ekki í þunglyndi í hrönnum.
En hvað um það. Það er sunnudagsmorgun í Skógarkoti. Klófríður og Kolgríma eru farnar út að leika sér og ég ætla að fara að hafa til huggulegan morgunmat. Að honum loknum verður kannski kúrt aðeins lengur í bólinu og hugsað um eitthvað annað en kreppu.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er: Þó þú gerir ekki annað í dag en sýna elskusemi öllum þeim sem þú hittir hefur þú staðið þig með prýði.