23 nóvember 2008

Að versla á útsölu

getur verið varasamt fyrir gamla konu eins og mig.
Ég er komin í smá aðventuskap og er að spá í jólaseríur utan á Skógarkotið. Ég hef legið á netinu og reynt að finna falleg ljós á viðráðanlegu verði en ekki fundið neitt.
Allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði farið í Rúmfatalagerinn eftir jól í fyrra og keypt nokkrar seríur á tombóluprís og þær bíða þess inn í geymslu að fá að fara upp í þakskeggið. Það hefði verið hálf neyðarlegt ef ég hefði keypt mér nýjar.
Ég er að reyna að fylgjast ekki of mikið með fréttum því ég verð svo reið þegar ég les og heyri um allt þetta sukk sem fjármálamenn hafa stundað með góðum stuðningi ráðamanna og forsetans.
Svo get ég bara alls ekki skilið hvernig í ósköpunum það á að vera hægt að fara í stórfellda eignaupptöku almennings í landinu meðan forsprakkarnir í þessu sukki fá að spranga um og halda áfram að sukka á okkar kostnað.
Ég vil að eignir þeirra verði gerðar upptækar og notaðar til að greiða fyrir þetta klúður. Þó að þetta hafi allt átt að heita löglegt sem þeir gerðu þá er það svo yfirgengilega siðlaust að það á ekki að líðast.
Á stríðstímum eru gerðir stríðandi stjórnvalda kannski ekkert rosalega ólöglegar en ég veit ekki betur en að nazistar hafi verið hundeltir fram til dagsins í dag.
Það á að gilda það sama um þessa menn sem hafa rænt okkur eignum okkar og ekki síst rænt mannorði íslensku þjóðarinnar.
Svo legg ég til að Flugfélag Íslands bjóði pakkaferðir - flug og mótmæli. Það hefur ekki vafist fyrir þeim að bjóða flug og hótel, flug og leikhús o.s.frv.
Við landsbyggðarmenn, margir hverjir alla vega, gætum vel hugsað okkur að mæta á Austurvöll.
Annars á ég svo mikið af flugpunktum að það er spurning hvort ég noti þá ekki bara til að skella mér suður til að þrusa nokkrum eggjum - ég baka hvort sem er engar smákökur fyrir jólin.

|