09 desember 2008

Það er skítt að vera skynsamur

Ég er búin að blása af aðventuferðina til Akureyrar um næstu helgi.
Miðarnir á Frostrósir verða nýttir af öðrum og ég er búin að afbóka gistinguna á KEA.
Jæja, það góða við þetta er að ég eyði þá ekki ógrynni af verðlitlu krónunum mínum á Glerártorgi.
Það er eitthvað svo auðvelt að segja öðrum að fara vel með sig og taka því rólega en þegar maður þarf að segja sjálfum sér það vandast málið.
Ég tími bara ekki að leggja nýskorinn og snyrtann öklann minn í hættu, ekki einu sinni fyrir skemmtiferð norður í land.
Það er búið að vera svo notalegt lífið hér í Skógarkoti í dag. Ekki af því að Maggi fór norður í land í húsmæðraorlof, heldur af því að veðrið hefur verið svo fallegt.
Snæfellið skartaði sínu fegursta og þegar sólin var að setjast hafði það rauðbleikan bakgrunn en ofar var himininn gulgrænn og blár. Það var svolítill hrollur í mér svo ég kveikti upp í kamínunni og nú sit ég hér við eldinn og kisurnar liggja makindalegar á gólfinu framan við kamínuna.
Kannski er það ekkert svo voðalega skítt að vera skynsamur.

|