05 desember 2008

Lata Gréta gerir við sjónvarp

Alltaf uppgötvar maður nýjar hliðar á sjálfum sér.
Í dag kynntist ég alveg nýrri hlið. Ég gerði við sjónvarpið mitt.
Um daginn þá ætluðum við Maggi að horfa á DVD disk en þetta tækniundur sjónvarpið, heimabíóið, routerinn og myndlykillinn hafa alltaf verið eins og hvert annað geimdót í mínum augum. Enda fór allt í klessu og það hefur ekki sést sjónvarp í Skógarkoti í nokkra daga.
En mér hefur verið slétt sama, horfi nánast ekkert á sjónvarp.
En í kvöld keppa mínir menn í Útsvari, Fljótsdalshérað keppir við Ljótu hálfvitana og ég má ekki missa af því.
Ég lagðist því á gólfið framan við geimgræjurnar, tók öll tengi úr sambandi, endurræsti routerinn, pússaði snjallkortið og gerði allar þær hundakúnstir sem mér komu í hug. Hringdi í Þónustuver Símans og fékk smá tækniaðstoð og viti menn. Nú er þessi fína sjónvarpsmynd komin á flatskjáinn og í fyrsta sinn síðan ég flutti í Skógarkotið sést Stöð 2 hér á heimilinu.
Aldrei hefði ég trúað því að mér tækist að koma svona tækniflækju til að virka.

|