26 maí 2009

Sumar í sveitinni.

Þá er nú sumarið loksins komið.
Ég hef ekki trú á því að sumarið sé komið fyrir alvöru fyrr en ég er búin að sjá í það minnsta einn spóa og birkið er farið að springa út. Birkið lætur ekki plata sig enda þekkir það íslenska veðráttu.
Á uppstigningadag fór ég ásamt fjölda manns út í Húsey að heimsækja Örn bónda. Það var yndisleg ferð. Krakkar fengu að sitja á hestum, við gengum út að ósi Jökulsár á Dal og Lagarfljóts og það var mikið fuglalíf, kríur, skúmar og fleiri fuglar. Svo má nú ekki gleyma blessuðum selunum sem svömluðu um með kópana sína. Þetta var heilt ævintýri.
Að lokinni göngu beið okkar steikt selkjöt heima í húsi. Ég hef ekki smakkað selkjöt í meira en aldarfjórðung og það var gaman að rifja upp hvernig það bragðast. Minnir á sjófugl.
Á heimleiðinni sá ég nokkra spóa og þá sannfærðist ég um að sumarið væri komið austur á Fljótsdalshérað.
Ég held að þetta verði gott sumar. Alla vega er tilhlökkun í sálinni.

|