08 október 2009

Slátur í höfuðstaðnum.

Ég er komin til borgarinnar.
Mamma úr sveitinni dvelur hjá dóttur og tengdasyni. Að gömlum íslenskum sveitasið hafði ég með mér slátur og við borðuðum heitt kreppuslátur, nýjar kartöflur og rófur í kvöld. Litli bróðir kom og borðaði með okkur og Íslendingarnir við borið voru afskaplega ánægðir með matinn. Enda átum við öll á okkur gat.
Pólski tengdasonur minn, hann Mirek, er með eindæmum jákvæður þegar íslenskur matur er á borð borinn. Hann byrjaði á að segja að þetta væri bara allt í lagi - ekkert vont. Hann setti vel af pipar yfir blóðmörinn og lifrapylsuna og smám saman lifnaði yfir Mirek og að lokum sagði hann að þetta væri bara góður matur.
Í Póllandi er líka búið til slátur en það er öðruvísi en okkar. Mirek er að fara til Póllands eftir nokkra daga og hann lofaði mér að hann myndi fá uppskrift að pólsku slátri hjá ömmu sinni. Ef slátur á að verða aðal fæða okkar næstu árin þá er eins gott að koma sér upp nokkrum uppskriftum.
Flugið suður var ljúft og gott þar til kom að því að lækka flugið. Þá fór að bera á ókyrrð. Síðustu kílómetarnir í aðfluginu voru frekar slæmir fyrir minn smekk. Mér fannst líka eins og við værum með smá hliðarvind. Flugstjórinn gaf vel í yfir Skerjafirðinum og við lentum heilu og höldnu á Reykjarvíkurflugvelli.
Við hlið mér sat kona og henni leið greinilega ekkert vel í lendingunni. Kreppti hendur um sætið fyrir framan svo hnúarnir hvítnuðu. Ég dró andann djúpt og gerði slökunaræfingar - þannig losnar maður líka við að finna hverja smáhreyfingu sem manni þykir frekar stór við þessar aðstæður.
Ég held að þetta sé líka leiðin til að komast af í þessu ástandi sem við búum við - draga andann djúpt og slaka á - þá verður lendingin mýkri.

|