Góðir dagar
Vikan hefur liðið allt of hratt eins og allar aðrar vikur í lífi mínu.
Í gærkvöldi fylltist Skógarkot af skemmtilegum konum. Ég stóð fyrir fatakynningu heima og það var nú aldeilis mátað og spáð og spekúlerað.
Maggi var sendur heim til sín þrátt fyrir að hann sé hundlasinn. En það er ekki hægt að hafa karlmann innan um konur að máta föt - það bara gengur ekki.
Við Maggi, Eyjólfur Skúla og Síla erum búin að kaupa okkur far til Tyrklands í sumar og við Síla vorum mikið að spá í hentug strandföt - svolítið absúrd þegar allt er á kafi í snjó á Egilsstöðum.
Litla skemmtiferðafélagið hefur marga mánuði til að hlakka til Tyrklandsævintýra og við Síla getum mátað marga tugi af bikiníum.
4x4 kappar lögðu af stað í Kverkfjöll um kaffileytið í gær. Þeir eru enn á leiðinni inneftir núna 18 klukkutímum seinna. Færðin er ömurleg, einn bíll var rétt lentur niður um ís ofan í vatn en það tókst að spila hann upp. Árnar eru með háum snjóbökkum þannig að þetta verður nú meira brasið hjá þeim. En halda skal þorrablót í Kverkfjöllum hvað sem veðurguðirnir segja.
Ég er að vonast til að Maggi hætti við að fara enda er hann hundlasinn.
Nestið er tilbúið og allt klárt. En kannski við verðum bara í lautartúr alla helgina heima í Skógarkoti - maulum harðfisk, borðum flatbrauð með hangikjöti og höfum það bara huggulegt.
Hvað sem Maggi gerir þá er ég að fara í Sláturhúsið með Grétu Aðalsteins annað kvöld að sjá leikritið Heilsugæslan.
Lífið er bara ljúft þrátt fyrir Icesave og aðra óáran.