26 febrúar 2010

Góðir dagar

Vikan hefur liðið allt of hratt eins og allar aðrar vikur í lífi mínu.
Í gærkvöldi fylltist Skógarkot af skemmtilegum konum. Ég stóð fyrir fatakynningu heima og það var nú aldeilis mátað og spáð og spekúlerað.
Maggi var sendur heim til sín þrátt fyrir að hann sé hundlasinn. En það er ekki hægt að hafa karlmann innan um konur að máta föt - það bara gengur ekki.
Við Maggi, Eyjólfur Skúla og Síla erum búin að kaupa okkur far til Tyrklands í sumar og við Síla vorum mikið að spá í hentug strandföt - svolítið absúrd þegar allt er á kafi í snjó á Egilsstöðum.
Litla skemmtiferðafélagið hefur marga mánuði til að hlakka til Tyrklandsævintýra og við Síla getum mátað marga tugi af bikiníum.
4x4 kappar lögðu af stað í Kverkfjöll um kaffileytið í gær. Þeir eru enn á leiðinni inneftir núna 18 klukkutímum seinna. Færðin er ömurleg, einn bíll var rétt lentur niður um ís ofan í vatn en það tókst að spila hann upp. Árnar eru með háum snjóbökkum þannig að þetta verður nú meira brasið hjá þeim. En halda skal þorrablót í Kverkfjöllum hvað sem veðurguðirnir segja.
Ég er að vonast til að Maggi hætti við að fara enda er hann hundlasinn.
Nestið er tilbúið og allt klárt. En kannski við verðum bara í lautartúr alla helgina heima í Skógarkoti - maulum harðfisk, borðum flatbrauð með hangikjöti og höfum það bara huggulegt.
Hvað sem Maggi gerir þá er ég að fara í Sláturhúsið með Grétu Aðalsteins annað kvöld að sjá leikritið Heilsugæslan.
Lífið er bara ljúft þrátt fyrir Icesave og aðra óáran.

|

18 febrúar 2010

Mamma Gógó

Í gærkvöldi fór ég í bíó á Seyðisfirði.
Það var verið að sýna Mamma Gógó og loksins fékk ég tækifæri til að sjá þessa mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar.
Myndin er yndisleg og mjög áhrifarík. Það jók e.t.v. áhrifin fyrir mig að sjá þessa mynd á Seyðisfirði en mamma dvelur þar á sjúkrahúsinu á deild fyrir heilabilaða. Svo er bíósalurinn gamall og hæfði myndinni vel.
Þó allir leikarar hafi skilað sínu hlutverki vel þá stendur Kristbjörg Kjell alveg uppúr að mínu mati. Þessi glæsilega kona sem hefur ekki bara verið falleg heldur alveg gullfalleg ung kona og er ekki síður glæsileg fullorðin kona.
Þar sem sonur hennar kemur til hennar á hælið og segir henni hvað hún hafi alltaf verið honum mikils virði þá er alveg eins og þarna sitji kona sem andlega hefur yfirgefið heim okkar.
Þó ég hafi á stundum orðið svolítið klökk þá er þetta ekki sorgleg mynd - það er mikill húmor í henni og Friðrik Þór fer mjög vel með þetta vandmeðfarna efni - að horfa á foreldra sína detta út úr samfélaginu og verða upp á aðra komin. Fólk sem hefur sitt stolt og á að fá að halda því.
Það eru nokkur ár síðan kvikmyndahúsarekstur lagðist af á Egilsstöðum en það er ágætur bíltúr að skreppa, í góðra vina hópi, frá Egilsstöðum í bíó á Seyðisfjörð - ég held ég geri meira af því í framtíðinni.

|

06 febrúar 2010

Lata Gréta í blótgír

Nú er gróska í samkvæmislífi á Héraði.
Þorrablótin eitt af öðru, hvert öðru glæsilegra og skemmtilegra. Menn breytast úr bændum, iðnaðarmönnum, húsmæðrum og skrifstofufólki og gerast skáld og listamenna á þessum árstíma. Semja einþáttunga og drápur, fara með gamanmál og sýna á sér alveg nýjar hliðar.
Ég var á þorrablóti Vallamanna á Iðavöllum í gær og í kvöld er stefnan sett í Eiða þar sem Eiða- og Hjaltastaðaþinghármenn halda sitt blót.
Ég elska þorrablót - hrútspunga, hákarl, harðfisk og smér.

|

05 febrúar 2010

Lata Gréta er ekki alveg dauð

Loksins komst ég inn á bloggið - tæknimálin voru að ergja mig.
Lífið í Skógarkoti gengur sinn vana gang. Ég reyni að láta fréttir af landsmálunum sem mest framhjá mér fara en samt kemst maður ekki hjá því að heyra um endalausa spillingu á Íslandinu góða. Og ég sem hélt að Ísland væri best í heimi.
Það Ísland sem ég er uppalin á og Ísland í dag eru svo ólík samfélög að það er varla hægt að finna neitt sameiginlegt með þeim. Meira að segja okkar ástkæra ylhýra íslenska er að stökkbreytast.
Í Skógarkoti er enn töluð íslenska þar sem nýja þolmyndin hefur ekki rutt sér til rúms og þar sem þeir sem nota þágufall í stað þolfalls eru leiðréttir. Þeir sem nota ekki nefnifall með sögnunum að hlakka og kvíða eru líka leiðréttir.
Annars reynir ekkert svo mikið á þetta í Skógarkoti því kettirnir mjálma og litli prins sem er 19 mánaða er ekki farinn að mynda setningar. Ég vona að Magnús Atli segi ekki einn daginn - það var klappað kött í dag.
Í kvöld halda Vallamenn sitt árlega þorrablót - ætli þetta sé ekki það 115. í röðinni.
Ég nota daginn á hárgreiðslu- og snyrtistofu, síðan fer ég heim klæði mig í kjólinn og hengi á mig glys og glingur.
Ég veit að borðin munu svigna undan þjóðlegum mat og svo verður sungið og dansað fram á morgun.

|