25 mars 2006

Tölvur og tóbak

Tölvurnar í vinnunni hafa verið alvarlega veikar.
Í gær byrjaði aðgerð sem stýrt er frá Reykjavík og á að ljúka á mánudag með aðstoð tölvutrítils úr heimabyggð og þá eiga tölvurnar að vera alheilbrigðar.
Það hringdi einn tölvugúru úr borginni í mig í gær og spurði hvort ég myndi ekki treysta mér að gera það sem þyrfti að gera ef mér yrði fjarstýrt úr borginni. Verkið er unnið í Reykjavík en það verður einhver á staðnum að vera til taks þegar eitthvað óvænt kemur upp. Ég var nú ekki til í að taka þess áhættu. Það var nefnilega þannig að það átti að vera einhver tölvuglöggur sem myndi vinna verkið hér heima - þar til við fáum trítilinn úr Tölvusmiðjunni á mánudag.
En það datt af mér andlitið þegar viðmælandi minn nefndi nafn eins vinnunágranna míns og spurði hvort hann gæti ekki gert þetta. Ég sagði nú bara að þó þarna væri um karlmanna að ræða þá kynni hann ekki helminginn af því sem ég kann á tölvur og ég myndi ALDREI, hleypa honum í tölvuna mína. Karlmenn !!!!
Niðurstaðan var svo sú að ég var kölluð út tvisvar í gærkvöldi til að fremja einhverja tölvugaldra. Í fyrra skiptið sem ég var kölluð út var ég að setja upp matinn, ég fékk nefnilega óforvarendis nokkra gesti í mat. Seinna útkallið kom svo þegar við vorum að setjast að borðum og ég var rétt búin að bjóða mönnum að gjöra svo vel. Ég bað gestina bara að byrja að borða, ég þyrfti aðeins að skjótast og þegar ég kom aftur heim var borðhaldi lokið.
Ég hef ekki gáð til veðurs í 10 daga. Mér gengur bara vel, fæ stundum smá nikótínkast en það er ekki viðvarandi svo ég ætti að hafa þetta af. Góðu fréttirnar eru þær að ég hef ekkert þyngst neitt þessa daga.

|