Höbbn í Hoddnafirði
Brunaði á Höfn í gærkvöldi.
Á leiðinni gúffaði ég í mig helling af sykurlausu nammi sem ég fékk í Bónus. Ég varð svo veik í mallanum að ég var eins og komin að burði þegar ég bókaði mig inn á Hótel Höfn. Ég hélt ég myndi deyja í Lóninu, ekki af fuglaflensu þrátt fyrir að Lónið væri þakið álftum frá sjúkum suðlægum löndum, heldur af því að ég hélt að ég væri með bráða-botnlangabólgu.
En ég hafði það af og í ljós kom að þetta voru bara áhrif af þessu Bónus-nammi. Það var gott á meðan það var í munninum en vont þegar það var komið ofan í maga.
Það var auðvitað yndislegt að koma á Höfn. Ég gerði smá könnun á atvinnuástandinu af því að ef að Skógarkotið verður ekki mitt þá gæti ég vel hugsað mér að flytja þangað suður eftir. Kannski ekkert sniðugt núna á þessum síðust og verstu tímum því farfuglarnir koma upp að landinu í Austur-Skaftafellssýslunni.
En hvað um það, ég fór auðvitað að versla eins og lög gera ráð fyrir í Hafnarferðum. Byrjaði í Lóninu, uppáhaldsbúðinni minni. Þar keypti ég mér nú bara einar gallabuxur, en ég fer aftur á Höfn eftir mánuð og þá tek ég Lónið betur út. Svo fór ég í smollið eins og litlu verslunarmiðstöðvarnar eru kallaðar. Þar keypti ég tvenn pör af sokkum, svo keypti ég ilmvatn, freyðibað og krem í apótekinu. Kíkti loks á netið í hádeginu og keypti ferð til Kaupmannahafnar.
Þetta var því bara skemmtileg og árangursrík verslunarferð. Var reyndar obbolítið að vinna líka.
Á leiðinni heim varð ég að stoppa og hleypa 40 til 50 hreindýrum yfir veginn. Þau komu skokkandi niður dal sunnarlega í Lóninu, rétt sunnan við bæinn Volasel. Ég hef oft áður séð hreindýr á þessum stað og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef þurft að stoppa til að hleypa dýrum yfir veginn þarna. Alltaf gaman að sjá hreindýr, ekki síður en að borða þau.