06 apríl 2006

Óveðrið sem brást

Síminn gekk þrotlaust og þyndarlaust í gærkvöldi.
Ótrúlega margir áttu erindi við mig og eins og gefur að skilja voru þetta mismunandi erindi.
Ein kona átti það erindi m.a. að segja mér að fara nú að drusalast til að blogga.
Í gær, reyndar strax í fyrradag, fór ég að heyra að veðurspáin hér fyrir austan væri hreint afleit, ja, eða þannig. Það átti að skella á norðan stormur með snjókomu.
Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar í gær, fór í Bónus og keypti Sviss miss og kringlur, alls konar ávexti, uppáhalds matinn hennar Kolgrímu og bara allt sem ég taldi mig þurfa á að halda á þeim tíma sem húsið mitt yrði á kafi í snjó og ég kæmist ekki út.
Ég tók heim verkefni úr vinnunni og var farin að hlakka til að verja deginum í dag á náttfötunum hér heima, sötrandi heitt kakó sem ég myndi dífa kringlu ofaní. Svo myndi ég láta fara vel um mig undir sæng, lesa skemmtilega bók og hlusta á norðanstorminn gnauða á rúðunum.
Full af tilhlökkun lagðist ég á koddann í gærkvöldi. En viti menn, þegar ég vakna í morgun er bara dandala blíða, sól og eins fallegt vetrarveður og hægt er að hugsa sér. Engin ófærð og enginn bylur. Ég bara á lappir, út í bíl og upp í vinnu.
Einhvern tíma held ég að ég láti það eftir mér að mæta á náttfötunum í vinnuna, það eru nú einu sinni uppáhalds fötin mín.

|