31 mars 2006

Reykbindindi

Ég er ekki fallin.
Það gengur bara ágætlega að hætta að reykja. Læknirinn minn lét mig hafa lyf sem á að hjálpa mér að komast yfir þetta erfiða tímabil.
Þetta er ótrúlegt lyf og ég hef heyrt margar sögur af því hvað fólki hafi gengið vel að hætta að reykja með hjálp þessa lyfs.
Lyfið var fundið upp sem þunglyndislyf en virkar ekki sem slíkt og í stað þess að henda því var ákveðið að pranga því inn á fólk sem í örvæntingu grábiður um hjálp til að hætta að reykja.
Lyfið virkar þannig á mig að ég hef haft stöðugan hausverk í viku, vakna meira að segja á nóttunni með hausverk, hef snert af þunglyndi, hef verið með kökk í hálsinum yfir smávægilegum hlutum, fengið kvíðatilfinningu út af engu, er stöðugt sunnan við mig, man ekki hvað einföldustu hlutir heita og vil helst fá að vera undir sænginni minni allan sólarhringinn.
Þess vegna hef ég ekki haft neitt til að blogga um undanfarið. Og þess vegna hef ég heldur ekki hugsað neitt um tóbak - mér hefur einfaldlega liðið of illa til þess að muna eftir því að ég er nikótínisti.
Ótrúlegt lyf.

|