10 apríl 2006

Kattamyndir og Skógarkot

Nú eru komnar myndir af köttunum hér á síðuna.
Tóta tölvutáta er búin að setja myndir af Garpi og Kolgrímu hér til vinstri. Eins og þið sjáið fer vel á með þeim og þar sem Kolgríma var að fá nýja gula ól þá gaf hún Garpi þessa gömlu grænu. Það sést nú ekki svo mikill stærðarmunur á þeim tveimur þarna á þessum myndum, en Kolgríma er árs gömul og Garpur fjögurra mánaða.
Myndirnar sem blasa við hér á síðunni gætu bara verið af mér, Garpi og Kolgrímu. Kolgríma á leiðinni út í heim, Garpur upp á skáp og ég örugglega að sleikja ís af diski í sykurkasti eftir að ég hætti að reykja. Ég þekki ekki þessa kónguló (eða köngurló), kynnist henni e.t.v. í sumar.
Garpur ætlar að koma og vera hjá okkur Kolgrímu um páskana svo það verður huggulegt hér hjá okkur.
Annars eru aðal fréttir dagsins að í dag var byrjað að grafa fyrsta grunninn í Bjarkarselinu í Selskógi. En í þeirri götu á að rísa hús sem fær nú reyndar númer eins og öll hús í nútíma þorpum en það fær líka nafn eins og húsi upp í sveit sæmir og á að heita Skógarkot. Þangað ætlum við Kolgríma að flytja ef Guð og gæfan lofa og allt gengur að óskum.
Eins og ég hef verið ákveðin í að búa hér þar til ég flytti í hvíta koffortið og eins og ég hef fengið gæsahúð og grænar þegar systkini mín hafa verið að byggja, þá bara skaut þessari hugmynd upp í kollinum á mér og hefur ekki farið þaðan aftur. En ég ætla heldur ekki að flytja í hálfkarað hús, ég ætla að flytja inn þegar allt er tilbúið og búið verður að láta renna í bað fyrir mig og laga kaffi - fasteignasalinn er meira að segja búinn að lofa mér því að það verði gott kaffi. Ef það verður eitthvað lap verður það flokkað sem leyndur galli og ég hef samband við lögfræðinginn minn og læt rifta kaupunum.

|