28 október 2005

Smásjárskoðun

Sigga vinkona mín úr Kópavoginum kom degi á undan áætlun.
Það var bara gaman, verst að ég var ekki búin að fjarlægja öll Bónussjampóin af baðinu áður en hún kom. Hún er nú einu sinni að selja hárgreiðslustofunum fínar hárvörur svo ég var auðvitað ekkert rosalega hrifin að vera staðin að því að nota bara ódýrustu sjampóin úr Bónus, af öllum búðum.
Hún hringdi til mín í gærkvöldi og sagði mér að koma upp á hárgreiðslustofuna mína í hárdekur, djúpnæringu og höfðunudd.
Ég lét ekki segja mér það tvisvar og dreif mig. Þetta var alger unaður.
Sigga vildi líka hárgreina mig. Hafið þið heyrt það áður??? Hárgreining??? Ég greindist alla vega vera með hár á hausnum. Svo fékk ég að skoða hársvörðinn minn í smásjá. Ekki þessari venjulegu sem þeir nota í CSI heldur alveg sérstakri smásjá. Minnir á sónartæki eins og óléttar konur eru skoðaðar með.
Þið ættuð að sjá hársvörð í smásjá, hann er ekki neitt augnayndi. Minnir mest á glært gel, ég sá æðar og svo voru hárin eins og nálar í nálapúða og langt á milli þeirra. En það var alla vega engin lús og engin flasa - hefði samt verið svolítið gaman að sjá eitthvað svoleiðis í smásjánni.
Ég reyndist hafa alveg sérstaklega heilbrigt hár, miklu hraustlegri hárleggi en voru þarna á einhverjum viðmiðunarmyndum. Þökk sé öllum ódýru sjampóunum.
Samt fór ég út með fangið fullt af dýru og fínu hárdóti sem á að gera hárið á mér ennþá fínna, eða öllu heldur fallegra, það er nógu fínt, næstum eins og dúnn og lekur líflaust eftir höfuðkúpunni - gæti verið Bónussjampóinu að kenna.
Frumburðinn gladdi aldraða móður sína í kvöld með því að hringja og tilkynna heimkomu um næstu helgi. Hún er að byrja að vinna í BA-ritgerðinni sinni og hvar annars staðar en á Héraðsskjalasafninu okkar er mesta heimildarnáman.
Mikið hlakka ég til að fá þessa elsku í kotið, elda uppáhalds matinn hennar og eiga notalegar stundir.

|