14 desember 2005

Glitský og veiðisögur

Í dag sá ég þau fallegustu glitský sem ég hef nokkru sinni séð.
Ég er búin að gleðjast mikið yfir þessu náttúruundri, allt þar til í kvöld að ég las það á mbl.is að þetta væri tákn um þynningu ósonlagsins. Það hlýtur að hafa verið voðalega þunnt ósonlag yfir Héraðinu í dag miðað við alla litadýrðina sem blasti við.
Kolgríma hefur verið í miklu veiðistuði í dag og í gær. Í gær hélt ég hún hefði veitt skógarþröst, hvar sem hún hefur fundið hann. Það var alla vega eitt sett af vængjum á pallinum og hún var að leika sér með þá. Um kvöldið fékk hún aðstoð við að veiða eina flugu sem birtist á heimilinu. Flugan hélt sig upp í loftinu og kisa náðin henni auðvitað ekki - þurfti hávaxinn karlmann til að aðstoða sig - óneitanlega spaugileg veiðiaðferð.
Í kvöld var hún svo að leika sér úti á palli með stærri væng en í gær. Ég held hún sé farin að veiða engla. Alla vega skrítið að þetta eru bara vængir sem hún leikur sér með. Ef þið rekist á vængstífða engla þá getið þið sagt þeim hvar vængi er að finna. Annars fór kisa frekar illa með þá.
Núna ætti ég að vera að skrifa jólakort. Ég er búin að skrifa þrjú kort af u.þ.b. 60 sem ég er vön að skrifa. Ég er líka búin að öðlast svo mikla trú á saumahæfileikum mínum eftir jólagardínusaumana að ég keypti mér efni í nýjan dúk á stofuborðið. Ég gæti líka verið að sauma dúkinn. En ég er frekar löt og ætla bara að hvíla mig með tærnar upp í loft - skrifa nokkur kort eftir því sem andinn kemur yfir mig eða mæla fyrir falinum á væntanlegum dúk.
Kisa er úti að leika sér, vona að það verði ekki fleiri fljúgandi verur á vegi hennar.

|