30 maí 2006

Danskar mýs

Í gæludýrabúðinni þar sem dónalegu asnarnir bjuggu keypti ég mýs.
Kolgríma og Garpur eru ekki lítið hrifin af nýju músunum. Ég gaf þeim hvoru um sig mjúka brúna mús og það mætti halda að það væri músakjöt innan í þeim. Ég hef aldrei séð þau skötuhjúin leika sér með neitt á þann hátt sem þau hafa leikið með þessar mýs.
Þau veltast um gólfið, halda um mýsnar með loppunum, naga þær og smjatta á þeim. Svo ganga þau um gólf með mýsnar í kjaftinum og Garpur urrar, milli þess sem hann malar. Kolgríma malar bara með sína mús. Hún urrar aldrei.
Garpur er mikill urrari. Þegar hann er að borða góðan mat þá urrar hann meðan hann borðar ef Kolgríma er nálægt matardöllunum.
Það er ekkert að gerast í Skógarkoti. Ég kíkti upp í skóg í gær og það er langt komið að grafa fyrir grunnum einbýlishúsanna ofan við götuna en ekkert farið að eiga við parhúsin neðan við götuna.
Nú þarf ég að fara að eignast nýja vinkonu. Nína er komin í bæjarstjórn og maður veit hvað það þýðir. Ég sé hana ekki fyrr en eftir næstu sveitarstjórnakosningar í fyrsta lagi. Ég veit nú hvernig þetta hefur verið með Önnu systur, ég man varla hvernig hún lítur út, hef varla séð henni bregða fyrir síðasta kjörtímabilið. En nú er hún hætt í bæjarpólitíkinni svo kannski rekst ég á hana á götu einhvern daginn, vona bara að ég þekki hana.

|