16 maí 2006

Stúdentsafmæli og vöðvabólga

Í dag eru 25 ár frá því að ég varð stúdent.
Eftir útskrift buðu pabbi og mamma okkur Finni og Gunnhildi að borða í Grillinu á Hótel Sögu. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan við sátum þarna fimm og áttum saman huggulega kvöldstund.
Í gærmorgun mætti ég í íþróttahúsið kl. 6.30. Ég var stálslegin og kenndi mér einskins meins. Var bara eins og maður segir við hestaheilsu. Tók ótrúlega vel á í spinningtímanum og að honum loknum fór ég eins og venjulega upp og skipti um skó. Eins og venjulega settist ég á bekkinn framan við afgreiðsluna og spjallaði við þessa morgunhana sem eru fastagestir í íþróttahúsinu.
Pétur læknir sat við hliðina á mér og ég vissi ekki betur en að ég væri hraust og heilbrigð.
Veit ég þá bara ekki fyrr til en Steini Óla kemur aftan að mér og ætlar að vera hufflegur og gefa mér axlanudd. Það voru engin vettlingatök viðhöfð enda maðurinn rammur að afli. Ég hélt hann ætlaði bara að kremja á mér vöðvana. Ég var viss um að mín síðasta stund væri upp runninn. Mér er enn illt í öxlunum.
Ég sem sagt yfirgaf íþróttahúsið yfirkomin af vöðvabólgu sem ég hef ekki fundið fyrir í mörg ár. Steini hefur vakið upp af dvala einhver bólgufjanda eða bara komið þessu fyrir í öxlunum á mér.

|