03 maí 2006

Ömurlegur dagur

Dagurinn í gær var sá ömurlegasti á árinu og þótt lengra sé litið.
Það gekk allt á afturfótunum. Ég gleymdi vinnulyklunum bæði um morguninn og í hádeginu og þurfti að fara heim og sækja þá. Vinnunágrannar mínir gleymdu sínum lyklum líka svo það var ekki einu sinni hægt að leita aðstoðar hjá þeim.
Fjármálaráðherra ákvað að spara ríkisútgjöld með því að greiða mér ekki yfirvinnuna. Í Kaupfélaginu voru svo langar biðraðir við kassana í hádeginu að annað eins sést þar ekki nema um jólin. Verslunarstjórinn ákvað að nota tækifærið og kenna nýju starfsfólki á kassana á þeim tíma sem fleiri en tveir eru að versla í búðinni. Við sem vorum að nota matartímann í verslunarferð vorum u.þ.b. að fara á límingnum.
Svona hélt allt áfram til kvölds. Ég var alveg hársbreidd frá því í gærkvöldi að fá mér að reykja, það eina sem bjargaði því var að ég átti nikótíntyggjó sem ég ákvað að athuga hvort virkaði og guði sé lof þá var það svo.
Eina skemmtilega við daginn í gær var að Ronald kom á litla Mini-inum til mín og fékk lánaðan ísskáp í nýju íbúðina. Ísskápurinn rúmaðist vel í bílnum hjá honum svo nú á Ronald fullan ísskáp af köldum bjór, eða mjólk eins og hann kaus að kalla það í mín eyru - en hvaða Þjóðverji tekur mjólk fram yfir bjór?

|