17 apríl 2006

Letilíf

Páskarnir hafa flogið frá mér.
Ég gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera en fullt af hlutum sem ég hafði ekki ráðgert þannig að útkoman er bara ágæt.
Dagarnir hafa liðið hver af öðrum í fjölskylduboðum og huggulegheitum.
Af einhverri kvenlegri skyldurækni skúraði ég gólfin, það veitti svo sem ekkert af því en það hefði ekki hrunið heimurinn þótt ég hefði sleppt því. Ég var bara ekki í rónni fyrr en öll gólfin voru skúruð. Undarlega árátta okkar kvenna.
En hvað um það, í gær var ég í fermingarveislu á Hallormsstað. Verið var að ferma Guðmund Gíslason. Þetta var auðvitað glæsileg veisla og óborganlega skemmtileg.
Ég hafði sexbombu Vallahrepps, frú hans og dóttur og Melafjölskylduna sem borðfélaga.
Við Sif fórum í sagnfræðirannsóknir og eftir nokkrar vangaveltur og spurningar sem svör fengust við á öðrum borðum þá höfum við komist að því sem hulið hefur verið dularfullu óminnismistri sl. 17 ár, en það er hverjar voru hinar sex konur sem stofnuð Gleðikvennafélag Vallahrepps. Nú sem sagt er það á hreinu. Sif vill hins vegar meina að bílstjórarnir hafi verið þrír en við Hrefna erum sammála um að þeir hafi bara verið tveir. Sif getur ekki tilgreint þennan þriðja svo hann heldur bara áfram að vera huldumaður.
Enda má svo sem segja að það er ekki neinn tilgangur með því að komast að öllu sem gerðist þetta kvöld og sumt má bara liggja áfram í óminnisþokunni.

|