30 apríl 2006

Sunnudagsganga

Við fórum 16 manns saman í gönguferð í morgun.
Við vorum frá 6 löndum og 3 heimsálfum. Auk þess voru tveir Siberian husky hundar með í för.
Við hittumst á tjaldstæðinu á Egilsstöðum og ég hélt að ég hefði aldeilis komist í feitt þegar bíllinn minn smá fylltist af karlmönnum, fjögur stykki takk og enginn af sama þjóðerninu. Ég naut þess að aka í rólegheitum upp Velli og inn Skriðdal.
Ég rifjaði upp leiðsöguhæfileika mína frá því að ég var virk í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og ók langt undir hámarkshraða til að draga ferðina á langinn.
Nú svo stoppuðum við hjá spennivirkinu við Hryggstekk og lögðum af stað gangandi upp Hallsteinsdal og eftir ríflega klukkutíma eða kannski hátt í tveggja tíma göngu, stoppuðum við og tókum upp nestið. Ég var farin að hlakka til heimferðarinnar með þessa myndarlegu karlmenn í bílnum, spáði í hvort ég ætti kannski að bjóða þeim í bíltúr hringinn í Skriðdal. En nei, ó nei, hvað haldið þið, þeir ákváðu allir að halda göngunni áfram og fara alla leið á Reyðarfjörð svo ég tríttlaði með nokkrum ferðafélögum aftur til baka og ók ein út í Egilsstaði.

|