20 apríl 2006

Það er komið sumar, sól í heiði skín .....

Óska landsmönnum til sjávar og sveita gleðilegs sumars.
Þakka ykkur öllum kærlega fyrir veturinn, sérstaklega ykkur sem hafið kommenterað á Lötu Grétu.
Sólin skín sæt og fín hér á okkur Héraðsmenn og ég er full af fögrum fyrirheitum um að nota daginn vel og koma mörgum hlutum í verk.
Nr. 1. Út að ganga.
Nr. 2. Fara á Seyðisfjörð.
Nr. 3. Fara í Gunnlaugsstaði.
Nr. 4. Ef guð lofar að vinna hér í smá verki sem ég er að humma fram af mér.
Garpur er nánast sestur að hjá okkur Kolgrímu. Hann er alger rúsína. Ég vakna á morgnanna við að hann er að þvo mér - hann er samt svo kurteis að láta andlitið á mér að mestu í friði. Hann malar eins og mótorbátur og er mjög líflegur og skemmtilegur á allan hátt.
Það er gaman að hafa tvo ketti því þá sér maður betur persónuleikaeinkennin. Kolgríma mín, þessi elska, er t.d. þóttafull prímadonna og svolítill fýlupúki. Gerir mikinn mannamun og lætur sig hverfa ef börn koma í heimsókn.
Garpur hins vegar er hvers mann hugljúfi, leyfir bæði smábörnum og gamalmennum að hnoðast með sig. Hann er hins vera frekjudallur þegar kemur að því að borða og ryðst fram fyrir Kolgrímu sem greinilega telur það neðan við sína virðingu að vera að troðast að matarskálunum.
Þau eru góð saman og núna sé ég þau út um gluggann minn þar sem þau eru að leika sér í sólinni úti í garði. Í morgun þá lágu þau alveg klesst upp við annað og möluðu bæði.
Eigandi Garps er að hringsóla um hálendið og við vitum ekkert hvort eða hvenær eða hvernig hann kemst heim. Síðast þegar við fréttum af honum var hann búinn að keyra nokkra hringi kringum Langjökul og var að leggja í annað skipti upp á jökulinn. Búinn að vera í þessum hálendistúr frá því á skírdag. Hann kemur örugglega heim fyrir haustið - við kisi höfum alla vega ekki áhyggjur.

|