Kraftaverk
Tími kraftaverkanna er ekki liðinn.
Alla vega ekki í mínu lífi. Hjá mér hefur átt sér stað ótrúlegt kraftaverk.
Ég vaknaði bara nokkuð hress bæði á laugardags- og sunnudagsmorgun. Stillti vekjarann ekki á áframhaldandi blund heldur fór á lappir og það áður en klukkan hringdi - þess vegna stillti ég ekki á blund.
Nema hvað. Á sunnudag fór ég í góða gönguferð, já, þetta er ekki mislestur, ég fór á reiðskjótum postulanna niður með Eyvindará, út með Fljóti og barðist heim aftur í mannskaðaroki en hafði það af upp á þjóðveg. Steinsofnaði reyndar þegar ég kom heim.
Síðan, enn meira undur og stórmerki. Ég vaknaði klukkan 6 í morgun, steig strax fram úr rúminu, lét ekki hvarfla að mér að breiða sængina yfir haus - kannski flaug það svona sem snöggvast í hug, en alla vega kl. 6.30 var ég sest upp á spinninghjól í íþróttahúsinu.
Mér líður eins og ég sé endurfædd.
Til að vera ekki að ergja sjálfa mig hef ég hætt að stíga á vigtina í bili. Núna er ég að hætta að reykja og meðan ég get troðið mér með skóhorni í gallabuxurnar mínar þá ætla ég ekki að fá taugaáfall.
Annars er ég að velta því fyrir mér að hafa samband við lýtalækni og athuga hvað fitusog kostar fyrir mig og Kolgrímu og hvort við fáum magnafslátt.