13 júní 2006

Stutt stopp heima

Þá er ég komin úr höfuðborginni.
Þetta var að mörgu leyti fín ferð. Tónleikarnir í Egilshöll voru bara mjög skemmtilegir, eins og ég var nú búin að vera með hnút í maganum yfir þeirri vitleysu minni að vera að kaupa þennan miða. Ég hef nefnilega verið illa haldin af mannhafsfóbíu síðan ég lenti í hræðilegum troðningi á samkomu hjá herstöðvaandstæðingum í Háskólabíói fyrir 29 árum síðan. Þá var ég komin rúma 6 mánuði á leið með frumburðinn og ég hélt að krakkinn yrði kreistur úr mér.
En ég sem sagt tók það stóra skref á þroskabrautinni í gær að fara á 15.000 manna samkomu án þess fá hræðslukast. Fékk aðeins smá í magann þegar ég fór að hugleiða hvað myndi gerast ef það kviknaði í húsinu. Hratt þeirri hugsun frá mér og hugsaði með mér að það gæti allt eins hrapað flugvél á Egilshöll.
Hann pápi minn sagði, að ef ég þyrfti endilega að hræðast eitthvað skyldi ég bara vera hrædd við að hátta í rúmið mitt því flestir gæfu upp öndina í rúminu sínu. Annars sagði hann að hræðslumælirinn í mér væri vitlaust stiltur því ég hræddist ekki það sem væri ástæða til að hræðast en væri lömuð af ótta út af einhverju sem engin ástæða væri til að óttast.
En ég er nú líka ánægð með að ég sem var svo hræðilega flughrædd hér á árum áður hef líka komist yfir það og þrátt fyrir að flugmaðurinn reyndi að hrist vélina eins og hann gat í aðfluginu að Egilsstaðavelli í morgun, léti hana detta nokkrum sinnum og sveiflast til og frá, þá sló hjartað í mér ekki svo mikið sem eitt aukaslag.
Ég er að leggja af stað á Hornafjörð. Síðan er það Borgarfjörður um helgina og svo neita ég að fara út fyrir bæjarmörkin fyrr en í ágúst. Mig langar að fá að vera nokkra daga heima hjá mér.
Ég heyrði góðar fréttir af mér í dag. Mér var sagt að bæjarfréttirnar segðu að ég væri búin að fá mér karl. Nú þarf ég bara að komast að því hver hann er svo ég geti í það minnsta haft svo náin samskipti við hann að heilsa honum á förnum vegi. Ef þið vitið hver þetta er, endilega látið þið mig vita.

|