Fréttabréf úr Skridddal
Munið þið eftir vikublaðinu Austra?
Þetta var blað sem Framsóknarflokkurinn gaf út á Austurlandi á síðustu öld. Gott ef Jón Kristjánsson fyrrum heilbrigðisráðherra var ekki ritstjóri, alla vega um tíma.
Í riti þessu birtust af og til skemmtilegir pistlar eftir Stefán í Flögu, fréttabréf úr Skriðdal. Ég sakna þessara pistla. Maður er löngu hættur að vita hvað er að gerast í Skriðdalnum, maður veit varla hverjir búa þar og enn síður hvað menn hugsa þar. Það var nefnilega svo skemmtilegt við þessa pistla að fyrir utan að segja frá tíðarfari og búskap í Skriðdal þá fékk maður líka að vita hvað hjón ræddu sín á milli undir fjögur augu og hvað bændur voru að hugsa. Þetta var eiginlega forveri Séð og heyrt.
Einu sinni var ég fengin til að skrifa grein í jólablað Austra. Þetta var grein upp á tvær eða þrjár heilar síður. Nema hvað, eftir að greinin birtist kallaði Stefán mig kollega sinn og þegar hann frétti að við værum skyld í 7. lið þá kallaði hann mig alltaf frænku. Stefán er einn af þessum einstaklingum sem maður þakkar fyrir að hafa fengið að kynnast, einn af þessum sem auðgar mannlífsflóruna.
Ég hef oft hugsað um hvað það væri gaman ef fréttabréfin úr Skriðdalnum væru aðgengileg til lestrar. En kannski ég fari bara á safnið til hennar Dísu, sem lengi var nú blaðamaður á Austra, og fletti gömulum Austrablöðum mér til skemmtunar.