22 október 2006

Sætaslagur

Lífið hjá mér er afskaplega einfalt og ljúft.
Hér hjá okkur Kolgrímu er allt með kyrrum kjörum og engin valdabarátta í gangi. Hún lítur ekki við nýja hægindastólnum í stofunni nema ég siti í honum, þá vill hún liggja ofan á mér og mala fyrir mig. Voða notalegt.
Ég var nú að hugsa um það í morgun, svona þegar ég var að koma úr draumalandinu yfir í raunveruleikann, hvað menn eru misjafnlega baráttuglaðir. T.d. hún Nína vinkona mín. Nú er hún í sömu stöðu og fjöldin annarra pólitíkusa í landinu, hún er að berjast um eitthvað tiltekið sæti á tilteknum framboðslista til væntanlegra Alþingiskosninga.
Hvað teku þá við? Kyrrð og friður? Nei, þegar búið er að berjast um sætin á listunum taka listarnir að berjast um þessi 63 sæti sem í boði eru í Alþingishúsinu við Austurvöll. Og þegar ljóst er hverjir fá þessi 63 sæti sem til úthlutunar eru taka við blóðug slagsmál um hverjir fá að sitja í fínu leðurstólunum sitt hvoru megin við forseta þingsins.
Endalaus sætabarátta.
Ef mig langaði að vinna í Alþingishúsinu myndi ég sækja um starf kaffikonunnar - ég held að hún sé valdamesti einstaklingur landsins því hún hefur vellíðan þessara 63 í hendi sér.

|