Haustfjúk
Það var nokkuð hvasst um helgina.
Flestir hafa sjálfsagt tekið eftir því. Sem betur fer virðast ekki hafa orðið stórskaðar, alla vega ekki sem ég hef frétt af.
Kolgríma var ekki viss hvernig hún átti að taka þessu veðri, vildi vera á randi út og inn allan sunnudaginn þegar sem hvassast var hér hjá okkur.
Hún skemmti sér við að elta þurrt haustlaufið sem skrúfaðist upp í vindinum með tilheyrandi hljóðum.
Ég reyndi að kalla hana inn þegar verstu vindhviðurnar gengu yfir en hún mjálmaði bara á mig og hélt áfram að elta þessi stóru asparlauf.
Það góða við þetta hvassviðri er að nú eru laufin sem voru út um allt framan við húsið komin í snyrtilegan haug undir eldhúsgluggunum og ég þarf bara að fá mér stóran poka og skóflu og moka þessu upp - ef ég hef einhvern tíma lausa stund meðan bjart er.