02 desember 2006

Heimsborgin Egilsstaðir

Ég skrapp í verslunarleiðangur niður í þorp -
svona eins og maður hefði einhvern tíma sagt.
En í dag voru þær systur Magga og Þura að opna stórglæsilega nýja Sentrúm-verslun í miðbæ Egilsstaða og ég hef aldrei haft það á tilfinningunni að það væri verslunarhverfi hér í bænum fyrr en í dag. Reyndar er þetta ekki í eiginlegum miðbæ heldur þarna í suð-vesturhorni þorpsins, við hliðina á Kaupfélaginu, rétt utan við gömlu mjólkurstöðina.
Ég óska þeim systrum hjartanlega til hamingju með þessa flottu búð. Þura hefur séð til þess síðustu 20 ár að ég væri ekki eins og niðursetningur til fara.
Ég ætlaði auðvitað bara að skoða en fór heim með þrjár fínar flíkur. Það var nú rætt um það á jólahlaðborðinu hjá okkur í gær að ég væri púkaleg að ætla að nota sama jólakjólinn og í fyrra, en nú geta menn tekið gleði sína því ég fékk mér bæði nýjan kjól og nýtt pils.
Ekki verður nú þessi búð til að auðvelda mér átakið Rannveig lætur eitthvað á móti sér.
En að lokum, í dag mæli ég með að þið farið á baggalutur.is og horfið á nýja myndbandið þeirra, þeir eru snillingar.

|