06 febrúar 2007

Aftur til fortíðar

Nú erum við í vondum málum.
Í öllum uppganginum hér á Egilsstöðum er þjónustu að fara aftur. Það er að vísu hægt að fá nóg að borða og kaupa byggingaefni í stórum einingum, ef maður ætlar að byggja sér blokk eða eitthvað slíkt.
En ef manni vanhagar eitthvað smálegt eins og tvær skrúfur þá versnar málið. Ég sé fram á að hafa jólaeldhúsgardínurnar uppi fram á vor eða þar til ég kemst næst í kaupstað því það er ekki nein álnavöruverslun hér lengur og gömlu gardínurnar mínar sem verða 40 ára á þessu ári voru orðnar nokkuð lúnar. Ef rennilás fer eða tala dettur þá er flíkin ónothæf fram að næstu kaupstaðaferð.
Ég er búin að heyra um alls konar fínar sérverslanir sem hyggjast opna hér eins og Rúmfatalagerinn, Blómaval og eitthvað fleira fínerí, en manni er bara bent á einhverjar holur í jörðinni og sagt að þarna verði opnuð verslun. Mér sýnist bið á að maður fái að berja vöruúrvalið augum.
Svo sá ég nú fram á betri tíð með blóm í haga því Iceland Express ætlaði í samkeppni við Flugfélagið á flugleiðinni Reykjavík - Egilsstaðir. En hvað kemur þá upp? Flugfélagið á kofaskriflið í Reykjavík þar sem flugafgreiðslan er og neitar Iceland Express um aðstöðu.
Það er urgur í mér.

|