06 maí 2007

Hefst nú vergangan

Þá er fyrsti dagur á vergangi hafinn.
Búin að pakka rúmfötunum og bíð eftir burðarliðinu sem kemur upp úr hádegi.
Ég var að velta fyrir mér þessu orði, vergangur. Við Kolgríma erum ekki að fara að ganga í verið, við ætlum að halda okkur hér í 40 - 60 km fjarlægð frá sjónum. En við fetum í spor Sölva Helgasonar og látum fótinn fæða okkur í sumar.
Það er að ýmsu að hyggja sem Sölvi þurfti ekki að gera þegar hann fór á flæking. Það þarf að lesa af rafmagninu, hitanum, gera ráðstafanir út af þráðlausu nettengingunni og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Jú, flytja lögheimilið sem breytist úr Reynivöllum 14 í Skógarkot. Þau á bæjarskrifstofunni vilja kannski hafa það eitthvað obbolítið öðruvísi. Götunafn og húsanúmer, en ég vil hafa það Skógarkot og húsið verður merkt með fínu Skógarkotsskilti sem ég er búin að láta útbúa.

|