07 júní 2007

Góður vergangur

Lífið á verganginum er afar ljúft.
Við Kolgríma höfum átt góða daga á Faxatröðinni og reyndar er Kolgríma svo ánægð með lífið þar að það hefur samist svo um að hún verði þar, þar til við flytjum í Skógarkotið.
Ég er reyndar svolítið leið út af því að Kolgríma hefur tekið svo miklu ástfóstri við húsráðendur að hún sér mig ekki nema hún finni enga aðra manneskju í húsinu.
Á morgun flyt ég í Hallormsstað. Þar bíður mín nú ekki slordónavist. Gissur bróðir ætlar að ferja hjólið mitt uppeftir í kvöld og svo er ég búin að semja við Sissu um heitt bað og nudd á hverju kvöldi svona til að byrja með alla vega.
Nú svo er veðurspáin góð fyrir helgina þannig að ég sé fram á sólbað í skóginum.
Það verður bara sangría og sól, grænmeti og ávextir næstu vikur.

|