18 júlí 2007

Hagkaup...

... þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla.
Þessi frasi hefur fengið nýja þýðingu fyrir mig eftir Akureyrarreisuna. Ég að velta því fyrir mér hvað hann var að fara myndarlegi maðurinn sem ég hitti í Hagkaup í Kringlunni einu sinni. Hann vék sér að mér og bað um ráðleggingar um hvers konar pönnu hann ætti að kaupa af því að hann ætti von á gestum í mat.
Voðalega get ég verið mikil geldrolla, af hverju vék hann sér að mér en ekki einhverjum starfsmanni? Hann var örugglega ekkert að fara að halda matarboð.
Ég er að fara í brúðkaup einhvers staðar suður á landi í guðmávitahvaðasveit. Það fylgdi landakort með boðskortinu. Ef ég gifti mig aftur þá ætla ég að bjóða til brúðkaups á ákveðnum gps-punkti upp á hálendinu og Guð, lukkan og gps-tækin sjá um hverjir skila sér.
Ég ætla að nota ferðina, ef ég týnist ekki i uppsveitum Suðurlandsins, og fara í Hagkaup í Kringlunni og Hagkaup í Smárlind og verja sunnudeginum þar.

|