04 september 2007

Hvaða öld er eiginlega

Ég trúi varla að það sé sú 21.
Mér finnst ég vera stödd á 7. áratug síðustu aldar. Þá var ég í eldhúsinu hjá mömmu á Neðstutröðinni í Kópavoginum. Mamma átti forláta tröppustól sem hún notaði til að komast í efstu hillurnar í skápunum, en ég fékk að nota stólinn fyrir skrifborð. Ég sat á efri tröppunni, stakk fótunum niður á milli lappanna á stólnum og notað efsta hlutann fyrir borð og þarna sat ég og teiknaði og litaði.
Núna er þessi stóll mikið þarfaþing í Skógarkoti og ég nota hann til að komast í efstu hillurnar í skápunum hjá mér.
En það eru ekki bara svona ljúfar minningar sem fá mig til að hverfa aftur til 7. áratugarins, ég pantaði flutning á heimasímanum og adsl-tenginu í Skógarkot fyrir 12 dögum. Já, þetta er rétt lesið, TÓLF dögum og ég er ekki enn farin að sjá bóla á neinni tengingu.
Í síðustu viku fékk ég samband við þjónustuver Símans eða Mílu, eða hvað fyrirtækið heitir nú, í Reykjavík og þá var mér sagt að það stæði á einhverjum manni með tenginguna. Nú, já, hvaða manni, spyr ég. Má ekki segja, segir stúlkan. Nú, já, er það eitthvað tengt verktakanum mínum? spyr ég. Nei, nei, segir stúlkan. Nú, já, er þetta þá innanhússmál hjá ykkur? spyr ég. Nei, ég má ekki segja, segir stúlkan.
Er ég stödd í Rússlandi 1965?
Jæja, ég ákvað að reyna að hafa samband við einhvern hér fyrir austan í gær. Ekki tók betra við.
Er þetta ný gata? spyr stúlkan sem ég talaði við. Já, en það býr samt fólk þarna, segi ég. Já, en fyrst þetta er ný gata þá tekur þetta lengri tíma, segir stúlkan. Já, en ég er bara ekki sátt við að fá ekki nettengingu heim, þetta er alveg ómögulegt, segi ég. Þá bara las stúlkan yfir mér og fræddi mig á því að það væri fjöldi manns sem væri háður netinu, fólk í fjarnámi, fólk sem notaði netið starfsins vegna og það væri bara ekkert hægt að setja alla í forgang (- nú, er ég bara einhver kerling sem hefur í sjálfum sér ekkert við netið að gera?). Nei, ég skildi vel að það var ekki hægt að setja alla í forgang, enda kvaðst ég ekkert vera að biðja um að vera sett í forgang, mér finndist þetta bara mjög langur tími sem þetta tæki og ég fattaði bara ekki svona þjónustu á þessum síðustu og upplýstustu tæknitímum.
Kannski maður taki bara aftur upp gamaldags bréfasamband við fólk og þjálfi upp nokkrar bréfadúfur.

|