28 september 2007

Lífið, tilveran og dauðinn

Mamma er á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði.
Þar hefur hún dvalið sl. 5 ár á deild fyrir heilabilaða. Á deildinni er fólk sem er með Altsheimer eða elliglöp.
Mamma er 86 ára og hún er alltaf fín og vel til höfð. Hún tekur alltaf brosandi á móti mér, faðmar mig og segir mér hvað það gleðji hana að sjá mig.
Við spjöllum saman og eigum notalegar stundir saman. Við spjöllum ekki um síðasta Kastljósþátt, við spjöllum ekki um landsins gagn og nauðsynjar. Við spjöllum um einfalda hluti sem gleðja. Um Kolgrímu, um náttúruna, um afkomendur mömmu.
Stundum þarf ég að endurtaka sömu fréttirnar oft, en það gerir ekkert til því við erum bara að spjalla og vera saman. Stundum man mamma að ég hef sagt henni þessar fréttir áður.
Þegar ég fer, faðmar hún mig og þakkar mér kærlega fyrir að hafa komið og segist hlakka til að ég komi aftur. En hún ásakar mig aldrei um að ég komi sjaldan.
Fyrst var ég mótfallin því að mamma færi á Seyðisfjörð, ég vildi að hún væri á Egilsstöðum. Deildin á Seyðisfirði er lokuð og mér fannst það skelfileg tilhugsun að mamma væri á deild sem væri lokuð og læst.
En svo lærði ég að líta ekki á þessa deild sem lokaða deild heldur sem öruggt skjól.
Það vill svo vel til að það er að mestu leyti sama starfsfólkið sem búið er að vera á deidinni frá því að mamma kom og hún nýtur þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá öldurnarþjónustu á sínu móðurmáli.
Í gær var ég á fjölskyldufundi á Seyðisfirði ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi. M.a. var rætt um meðferð við lífslok. Hvað á að taka til bragðs ef upp koma alvarleg veikindi hjá mömmu? Ef hún fær svæsna lungnabólgu, hjartaáfall?
Þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn þá gleðjumst við og viljum öll leggja okkar af mörkum til að litli einstaklingurinn finni sig velkominn í heiminn og að hann fái góðan uppvöxt og gott atlæti.
Eins held ég að við ættum að huga að því að þegar einstaklingur hefur skilað ævistarfinu þá verði honum gert það sem léttbærast að fara síðasta spölinn með reisn og stolti.

|