03 október 2007

Spergill og snúður

öðru nafni Anna Berglind, á afmæli í dag.
Hún er 22 ára - til hamingju með daginn vinkona.
Svo eiga líka bróðurdætur mínar, systurnar Margrét Herdís og Kristín Halldóra afmæli og litli afastrákurinn hans Magga - hamingjuóskir til ykkar allra.
Kolgríma hefur verið að kanna umhverfið af mikilli varkárni undanfarið. Hún fór í könnunarleiðangur fram í bílskúr í morgun, ég hélt að hún myndi þá verja deginum þar því þar er margt að skoða, hellingur af kössum og dóti. En þessi könnunarleiðangur tók bara 15 mínútur.
Hún hefur aðeins brugðið sér út um garðdyrnar en ekki farið út fyrir lóðamörkin. Hún vill ekki fara út um aðaldyrnar því það er allt fullt af ókunnum körlum úti á götu og miklar framkvæmdir í gangi hér í næstu húsum.
En í dag hefur veðrið verið með eindæmum gott og falleg hér á Egilsstöðum og Kolgríma brá sér út í hádeginu. Hún lét sér ekki duga að vera á landareigninni okkar heldur hvarf hér eitthvað niður í skóg. Ég varð bara að fara aftur í vinnuna þó kisa væri farin að heiman. Ég hringi á Faxatröðina til að láta þau vita að kisa væri vís að koma í heimsókn til þeirra.
En þegar ég kom heim úr vinnunni þá stóð þessi elska grenjandi úti á palli. Mikið varð ég fegin.
En eitt undarlegt hefur verið að gerast í dag. Í hádeginu hitti ég einhvern mann sem ég hef aldrei áður séð, hann spurði hvort svarta ryksugan væri hjá mér. Síðan hringir Bjössi smiður og spyr hvor svarta ryksugan sé hjá mér og þegar ég var komin heim úr vinnunni þá er hringt á dyrabjöllunni og úti stóð einn af smiðunum og spurði hvort svarta ryksugan væri hjá mér.
Ryksugan mín er RAUÐ og þá vitið þið það allir karlar á Egilsstöðum, hættið að spyrja mig um þessa svörtu ryksugu.

|