16 desember 2007

Macintos skiptimolamarkaður

Kærleikskúlurnar seldust ekki eins vel og um síðustu helgi.
En það var gaman í Barra. Ég tók þátt í vali á Kjötkrók Austurlands 2007. Bændur mættu með heimareykta hangikjötið sitt. Minn bóndi mætti ekki, hann hefði nú skorað hátt í þessari keppni. En ég átti erfitt með að gera upp á milli hvort kjötið úr Möðrudal eða frá Flúðum var betra, annars var allt hangikjötið gott.
Það var boðið upp á Rússasúpu. Uppskrift frá Hrafni heitnum á Hallormsstað. Geyma soðið af hangikjötinu og þegar búið er að borða á jóladag er afgangurinn af hangikjötinu skorinn niður í bita sem settir eru í soðið ásamt afgangnum af rauðkálinu, grænu baununum og makkarónusalatinu - sem er sérstakur Vallaréttur, upprunninn úr Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Þetta er svo allt hitað á annan í jólum og borðað með laufabrauði og smjöri. Ágætis súpa með sögu.
En ég hitti þau hjónakorn Jón Gunnar og Sillu. Þau fóru að ræða Macintos-bloggið mitt og komu með þá snilldar hugmynd að á þrettaándanum gætum við haldið Macintos-skiptimolamarkað. Þangað mæta allir með vondu gestamolana sína og skipta þeim út fyrir góða mola. Ég t.d. á alltaf þessa appelsínu- og jarðarberjamola eftir, mér þykja þeir vægast sagt ... vondir. Það er til fólk sem þykja þetta góðir molar og það mætir með sína gestamola og skiptir við mig og fá mína gestamola.
Þannig getum við látið allt konfektið ganga upp.
Ef enn verður eitthvað eftir vill Jón Gunnar stofna til áheita og að Eiríkur bæjarstjóri borði allra verstu molana til styrktar góðu málefni.

|