14 janúar 2008

Ef til vill og kannski eða bara eitthvað annað

Mikið eru dætur mínar heppnar að það var ekki ég sem valdi nöfnin á þær.
Ég væri sennilega ekki enn búin að komast að niðurstöðu með hvaða nafn væri best, alla vega er ég alltaf að skipta um skoðun hvað kisu varðar.
Pabbi valdi nafnið á Gunnhildi, bað mig um að ef ég eignaðist stúlku þá fengi hún þetta nafn eftir formóður okkar. Ég féllst strax á það, enda fannst mér nafnið fallegt.
Nú, svo völdu Finnur og Gunnhildur nafnið á Önnu Berglind, Anna í höfuðið á tengdamömmu og Gunnhildi fannst Berglindar nafnið svo fallegt.
Svo loksins þegar ég fæ að velja nafn, þá bara er ég alltaf að skipta um skoðun.
Dætur mínar fussuðu og sveiuðu yfir Kleópötru nafnin - það væri svona tú möds.
Anna Berglind stakk upp á nafni sem ég er bara mjög ánægð með, Klófríður - enda kalla ég kisu Litlu Kló.
Svo ef ég verð ekki búin að skipta um skoðun um næstu helgi, þá heitir hún Klófríður Kúld.
Annars er það helst að frétta héðan af heimilinu að kvörnin í Kolgrímu er komin aftur í gang, en hún hætti alvega að mala eftir að Litla Kló kom til okkar. Þær eru að verða mestu mátar, leika sér og geta borðað samtímis. Svo kom ég að Kolgrímu þar sem hún var að sleikja hausinn á litlu kisu.
Þetta stefnir í að vera friðsælt fyrirmyndarheimili hér í Skógarkoti.

|